30.6.2007 | 21:45
Ég er fluttur.....
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.6.2007 | 00:55
Ég var feitari en skólaostur..!
Stundum finnst mér við flækja einfalda hluti.
Það er alveg öfugt við alla þróun í heiminum! Farsími er t.d. ekki lengur bara farsími, heldur er hann líka myndavél, vídeó myndavél, leikjatölva og staðsetningartæki með tölvupósti. Þessu tæki fylgir aðeins eitt hleðslutæki og er því einfaldara með í förum...!
En með því að einfalda öll þessi tæki í einu þá reynist oft erfitt að hringja úr þessum síma. Í staðinn fyrir að tala við mömmu þá er maður búinn að fylla innra-minnið af vídeó upptöku af tánum á sér.
Baráttan við aukakílóin er annað einfalt dæmi sem búið er að flækja.
Í gamla daga var borðaður feitur matur. Slátur, sviðasulta og fiskur með tólg teljast seint til hollmetis í dag. Samt erum við feitari en forfeður okkar. Ástæðan er hreyfingin eða öllu heldur hreyfingaleysið. Forfeður okkar unnu líkamlegt erfiði og voru sífellt að brenna orku og þurftu því orkuríkan mat á borð við slátur.
Í dag þurfum við líkamsræktarkort og jafnvel einkaþjálfara til þess að hreyfa okkur. Ég er sekur, ég fór þessa leið. Ég fór í fitumælingu og fékk úrskurðinn að ég innihéldi meiri fitu en Skólaostur.
Ég og GOTTI vorum eins. Þessi niðurstaða var og er ástæðan fyrir því að ég sést 4 sinnum í viku á fullu á hlaupabrettinu í Laugum. Þar neyðist ég til að horfa aftan á sveittan endurskoðanda hamast á stigavélinni og finna af honum lyktina.Fyrir þetta borga ég tugi þúsunda á ári.
Væri ekki einfaldara að fara út að hlaupa, fá frískt loft með því að klæða sig vel og spara pening?! Nei, alveg rétt, ég er í reglulegum sparnaði í greiðsluþjónustunni og þarf ekki að spara meira. Ég er í greiðsluþjónustunni til þess að þurfa ekki að fara í bankann. Auk þess fæ ég nægt frískt loft þegar ég fer og sæki pítsu sömu stærðar frítt með. Ég kann nefnilega ekki við að sýna leti og fá hana senda frítt heim, fyrir utan að það er svo flókið að hringja úr farsímanum mínum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 00:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.6.2007 | 00:09
Kynjafræði 101..? Framhald (til dauðadags).
Ok, ég hef greinilega hitt á topic sem að fólk vill láta í ljós skoðanir sínar (kemur ekki á óvart reyndar).
Bara svo að ég sé að koma hreint fram, þá held ég að Herbert Spencer hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann kom fram með Survival of the fittest kenninguna sína.
Mín skoðun er sú að við erum öll einstaklingar og verðum að láta meta okkur sem slíka. Óháð kynferði.
Auðvitað höfum við öll myndað okkur fyrirfram ákveðnar hugmyndir um flesta hluti, eins og "það er kalt á Grænlandi", "Skoda er drasl bíll" og "Mjólkurvörur eru allar hollar!".
Ef að við kynnum okkur málið, þá kemur í ljós að á Suður Grænlandi er ekki kaldara en á Íslandi, Skoda eru ótrúlega vandaðir bílar miðað við sinn verðflokk og að í allt of mörgum mjólkurvörum er meiri sykur en góðu hófi gegnir.
Semsagt, öll og allir hljóta að hafa gerst sekir um það einhvern tímann að álíta einhver starfssvið henta körlum betur og önnur starfssvið konum.
Ég skal byrja játninguna mína á þeim störfum sem að ég gef mér að henti meirihluta kvenna almennt betur en meirihluta karla:
- Ljósmæður, Dagmæður, Starfsmannastjórn, afgreiðslustörf og leikskólakennarar.
*hver er samnefnarinn? Umönnun, 8 - 10 tíma vaktir og lálaun.
Störf sem að ég gef mér að henti meiri hluta karla almennt betur en meirihluta kvenna:
- sjómennska, blikksmíði, vélvirkjun, rafvirkjun og pípulagningar.
*hver er samnefnarinn? Líkamlegt erfiði, mikil yfirvinna og hálaun.
Bæði kyn geta og hafa unnið öll þessi störf. En hvað? Af hverju er þessi kynjamunur í þessum störfum? Og umfram allt, af hverju er ekki verið að ræða um kynjakvóta í þessum starfsgreinum eins og verið er að ræða kynjakvóta í hátekju og "þægilegu" störfunum?
Stærra mál, af hverju erum við ekki að borga meira fyrir þau störf sem að snúa að því sem að okkur er kærast, börnunum okkar?!
Hvernig stendur á því að við erum til í að borga ungri konu 12 þúsund kall fyrir klippingu og hárlit, en fussum yfir því að þurfa að borga 24 þúsund krónur á mánuði fyrir gæslu og uppeldi á barninu okkar í leikskóla, sem er þar 20 daga í mánuði og það 6-8 tíma í senn.
Stórar spurningar sem að kynin munu ræða áfram um ókomin ár. Og það vonandi í bróðerni eða systerni (Þið megið velja).
Herbert Spencer: http://en.wikipedia.org/wiki/Survival_of_the_fittest
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 00:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.6.2007 | 12:29
Er ég karlremba?
Ég er ekki karlremba, eða mér finnst það alla vega ekki.
Ég elska og virði konuna mína, móður mína, tengdamóður og ömmu. Ég ber virðingu fyrir samstarfskonum mínum og konum almennt. Mér finnst að starfsmenn (konur og karlar) eigi að fá sömu laun fyrir sömu störf svo framalega sem að þeir skili báðir sama tímafjölda eða skili jafnmiklu af sér í hverjum mánuði.
Semsagt, það skiptir mig engu máli hvort starfsmaður pissi sitjandi eða standandi. Starfsmaður er starfsmaður og fyrir mér kynlaus vera sem starfsmaður.
Ég er semsé búinn að færa rök fyrir því að ég telji mig ekki karlrembu. Að þessu sögðu þá finnst mér pirrandi að hlusta á að það vanti fleiri konur á þing eða fleiri kvenkyns ráðherra! Mér finnst að líta beri á þingmenn og ráðherra sem kynlausar verur sem ber að kjósa fyrir þá hugsjón og þeim áhuga sem viðkomandi hefur á samfélagslegum málefnum, hvort sem viðkomandi pissar sitjandi eða standandi.
En það er oft eins og karlmenn megi ekki hafa neikvæðar skoðanir á konum. Þeir hinu sömu eiga það á hættu að verða fyrirvaralaust stimplaðir karlrembur.
Stundum finnst mér kona glæsileg og stundum drusluleg, stundum finnst mér kona virka heimsk, önnur greind. Alveg eins og mér finnst sumir karlmenn glæsilegir og aðrir druslulegir, sumir heimskir, aðrir greindir. Eitt eigum við öll sameignlegt, við erum öll einstaklingar og verðum alltaf dæmdir sem slíkir. Alveg er ég samt viss um að einhver lesi þessa grein og hugsi með sér, hann segist ekki vera karlremba, en samt er hægt að lesa kvenn-fyrirlítningu á milli línanna í þessari grein!. Nei, það er ekkert á milli línanna.
Eitt má ég þó til með að gagnrýna. Dömubindi. Af hverju voru dömubindi kölluð bindi. Þetta er heilagasta spariklæði okkar karlmanna. Dömubindi og herrabindi eru eins ólík og hugsast getur. Er dömubleyja alveg off?
Til hamingju með daginn Konur.
p.s. ég á karlkyns vin sem pissar alltaf sitjandi.
18.6.2007 | 09:02
Tíminn er peningar...!
Við erum á hverjum degi í kapp við tímann.
Hvort sem það er hraðvirkari helluborð, 2 mínútna hrísgrjón eða megrunarlyf sem virkar á meðan þú sefur.
Við erum sífellt að leita leiða til að einfalda hluti til þess að við getum notið lífsins betur. En hvað er lífið? Erum við ekki bara að eyða öllum okkar tíma í að gera allt þægilegra án þess að njóta þess?
Í sólarhringnum eru 24 tímar og því breytum við aldrei. Ekki einu sinni í nefnd. Við erum öll að hamast við að finna leiðir til þess að nýta hverja mínútu til að hafa fleiri mínútur til að nýta í annað.
Það kostar 13 tíma vinnu að kaupa hrísgrjónapott sem einfaldar ferlið við að sjóða hrísgrjón, sem gerir okkur kleyft að nýta tímann í að skera grænmeti og steikja kjúklingabringur, án þess að hafa áhyggjur af því að Hrísgrjónin brenni við. Við völdum kjúklingabringur fram yfir heilan kjúkling af því að það tekur lengri tíma að elda heilan kjúkling. Bringurnar eru reyndar töluvert dýrari, þannig að við þurftum að vinna einn aukavinnu tíma fyrir þeim mismun. En það er í lagi, af því að við erum svo snögg að elda svona mat, við gátum því alveg unnið aðeins lengur.
Með því að horfa á fréttirnar á litla 20 plasma sjónvarpinu í eldhúsinu sem kostaði fjórtán daga kaup, á meðan við borðum, þá spörum við 30 mínútur. Síðan tökum við leirtauið og skellum því í uppþvottavélina, sem að kostaði tuttugu daga kaup, og náum að spara okkur amk. 40 mínútur í viðbót.
Nú þar sem að við erum svona dugleg í vinnu og náðum að spara okkur þennan tíma þá getum við fengið barnapíu og farið í tíu bíó. Enda eigum við það skilið. Það kostar ekki nema þriggja tíma vinnu sem að við náum að vinna upp um helgina því um helgar þá pöntum við alltaf heimsendan mat eða borðum í Ikea og spörum þannig rafmagn og tíma. Það er svo mikilvægt að eiga gæða tíma með börnunum. Þau hafa líka svo gaman af því að fara í Ikea og leika sér í boltalandi. Enda var allt að 70% afsláttur af völdum vörum. Við erum alltaf að spara.
Ég las einu sinni í bók: tíminn er peningar. Þess vegna er ég hættur að eyða tíma í lestur bóka.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.6.2007 | 17:28
Og hvað er málið með bílaflota ráðherra?
Ótrúlegt að blaðamenn sjái ástæðu til að gera úttekt á bílaflota Ráðherrana okkar.
Það er alltaf verið að bera Ísland við hinar og þessar þjóðir í hinum og þessum málum. Síðan er ekki haft fyrir því að skoða bílaflota ráðherra annarra landa í úttekt á þeim bílaflota sem hér á landi er.
Hvað haldið þið að margir Forsætisráðherrar aki um á óbrynvörðum bíl í heiminum? Hvað haldið þið að brynvarinn bíll kosti?
Síðan er ótrúleg umræða um að ráðherrar okkar þurfi ekki að hafa bílstjóra, heldur geti alveg ekið og lagt sínum bílum eins og við hin. Ég veit ekki með ykkur, en ég vinn í miðbæ Reykjavíkur og ef að ég hefði bílstjóra, þá væri vinnudagurinn minn ca. svona 1 klukkustund lengri í framkvæmdum.
Ég vona bara að Ráðherrar okkar fái nægilega mikla aðstoð í því sem þeir geta notið aðstoðar, og einbeiti sér að því sem að skiptir máli.
Sumir blaðamenn ættu að leggja aðeins meiri vinnu í greinarnar sínar, fyrir utan að stundum er í lagi að taka jákvæða "vinkilinn" á hlutina. Eins og þessi grein sem að ég sá um daginn. Það hefði verið hægt að fjalla um hvað okkar Ráðherrar á Íslandi væru ódýrari í rekstri en þeir á Norðurlöndunum eða í Frakklandi.
Síðan er alveg efni í heila grein í að tala um hvað öll pólitísk umræða á landinu er neikvæð. Það er eins og góðu málin og árangurinn sem að stjórnmálamenn ná (óháð flokkum) sé bara ekki frétt. Það er eins og fréttamenn séu alltaf að leita uppi það sem ekki er nægilega gott. Já, alveg rétt. Fréttamenn eru í raun ekki fréttamenn lengur, þeir eru 4-valdið og eiga að veita stjórn landsins aðhald í einu og öllu. Ég er sammála því að fréttamenn eiga að veita aðhald, en þeir verða að gera sér líka grein fyrir því að þeir hafa líka áhrif á ánægju og óánægju í samfélaginu.
Ekki öfunda ég ráðherra með 900 þús. á mánuði sem að ekur um á lánsbíl fyrir 9 milljónir og þarf í staðinn að vera undir stöðugu nálarauga pirraðra blaðamanna.
Ímynd blaðamanna er ekki nægilega góð, því þessi stétt þarf að njóta virðingar og trausts. Það eru alltof neikvæðar kannanir að koma inn gagnvart blaðamönnum og trúverðugleika.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.6.2007 | 11:20
Þurfum við að fara á bíl?
Ísland er bílaþjóð. Það vita allir. Við eigum heimsmet í bílaeign miðað við höfðatölu. Og ég efast um að íbúar margra þjóða aki um á jafn nýlegum bílum og við. En erum við ekki oft að nota bílinn að óþörfu?
Hve stutt þarf vegalengdin að vera til að við sleppum því að fara á bíl? Ég er ekki að pæla í þessu á þeim forsendum að við mengum svo mikið eða að það sé svo mikil heilsubót að ganga. Því hvort tveggja er rétt og allir vita það. Heldur er ég að velta fyrir mér hvort það sé ekki bara almennt séð sniðugra að ganga.
Af hverju dettur manni aldrei í hug að labba útí búð? Er það af því að maður hefur svo lítinn tíma að maður sér ekki af fimmtán mínútum til viðbótar í verslunarferðina? Ekki séns! Meira að segja lögfræðingar ríkislögreglustjóra gætu bætt fimmtán mínútum við innkaupaferðina í Bónus!
Mín skoðun er sú að við séum bara búin að venja okkur of mikið á bílinn. Hægt og bítandi höfum við verið að stytta þá vegalengd sem að við treystum okkur til, eða nennum, að ganga. Ef við tökum Mosfellsbæ sem dæmi þá tekur það mig um það bil tíu mínútur að ganga heima frá mér og í Krónuna. Sumsé, það tæki mig þrjátíu mínútur að rölta í búðina, kaupa í matinn og rölta heim. Á leiðinni gæti ég tæmt hugann af amstri hversdagsins og ákveðið hvað ég ætla að hafa í matinn, sem tekur mig yfirleitt jafn langan tíma og það tekur mig að labba í búðina. Á heimleiðinni gæti ég svo velt því fyrir mér hvernig ég ætla að elda kvöldmatinn.
Ég kæmi heim rjóður í kinnum og útitekinn, þrátt fyrir að hafa hangið inni allan daginn fyrir framan þessa tölvu sem að ég sit við akkúrat núna. Það sem meira er, matarlystin eykst við útiveruna og labbið felur í sér óvæntan sparnað. Það er nefnilega ekki hægt að bera allt heim sem hugurinn girnist. Þess vegna vandar maður valið og kaupir minna. Löbbum út í búð!
Þið sem viljið endilega halda áfram að vera löt og gráðug, munið að drepa á bílnum á meðan þið eruð í búðinni. Það gæti einhver stolið honum, einhver sem nennir ekki að labba heim.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.6.2007 | 08:55
Forræðishyggja er skaðleg.
Forræðishyggja hefur verið mikið í umræðunni undanfarin ár.
Oftast er talað um þetta í samhengi nýrra laga og reglugerða. Við sem erum foreldrar þekkjum þetta, því að við erum sífellt að vara börnin okkar við.
Passaðu þig á svellinu, það er hált, þú dettur og meiðir þig! Barnið fer ekki út á svellið og kannski fermist það án þess að hafa nokkru sinni dottið á svelli. Það eina sem barnið veit er að það er vont að detta, annars veit það ekki hvað detta er.
Semsé, barnið þekkir umbúðirnar en ekki innihaldið. Þetta er meira vandamál en margir gera sér grein fyrir, þ.e.a.s. forræðishyggjan. Hún er að skemma heilu kynslóðina.
Foreldrar í dag, eru ákveðnir í að veita börnum sínum allt það besta sem þeim var ekki veitt í æsku, þeir ætla líka að vera með í öllum áhugamálum barnanna, mæta á fótboltaleiki, fimleikaæfingar og reyna að verða vinir barnanna og vina þeirra. Síðan eru foreldrarnir svo stoltir með barnið sitt af því að það skoraði í fótboltaleiknum að auðvitað þarf að verðlauna fyrir slíkt.
Börn í dag eru sífellt að fá verðlaun fyrir hluti sem í raun á ekki að verðlauna fyrir. Hrós, er nefnilega alveg nóg oft á tíðum. Frændi minn var t.a.m. á fótboltamóti og lið hans hafnaði í 5 sæti á mótinu. Það var fínn árangur í sjálfu sér. En eftir mótið var alveg tilefni til að setja nýtt markmið að ári, hafna í 3-4 sæti næst og gera aðeins betur. En nei, frændi minn kom rosalega ánægður með lífið, því að hann fékk líka gullpening eins og allir á mótinu. Sigurvegararnir fengu ekkert meira.
Ég vil ekki virka harðbrjósta, en er lífið svona eins og þetta mót? Þurfum við ekki að láta börnin okkar takast á við hluti eins og höfnun, metnað, eigin ábyrgð og eigin markmið. Lífið er svo miklu óréttlátara en Pollamót í fótbolta.
Þó svo að lífið sé leikur, þá er munurinn á þeim leik og knattspyrnuleik sá að fimmta sætið fer ekki heim með verðlaun.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
12.6.2007 | 23:38
Hvernig verða elliheimili framtíðarinnar?
Ég hef oft og lengi velt því fyrir mér hvernig mín efri ár verða. Það er ekki gefið að maður verði við góða heilsu en ég ætla að gefa mér það að ég haldi meðal góðri heilsu.
Okkar fólk á Elliheimilum í dag var alið upp við mun krappari kjör en í nútímanum. Það kunni sér hóf í mörgu og var sjálfum sér nægt í mun meiri mæli en tíðkast nú á dögum. Þetta er auðvitað gott mál fyrir Ríkið, því að aðbúnaðurinn þarf ekki að vera mikill né heldur eitthvað sérstaklega kostnaðarsamur. Amma mín er kampakát með að komast á spilakvöld einu sinni í viku og það þarf ekki nema einn spilastokk á hverja fjóra til að afgreiða það mál.
En hvernig verða Elliheimilin í framtíðinni? Það er alveg útilokað að ætla einungis að bjóða uppá RÚV, Gísla Martein og Spaugstofuna í opnu 50 manna sjónvarpsherbergi. Kröfurnar verða einfaldlega meiri.
Ég sé fyrir mér alla hafa 42 plasma sjónvarp inná hverju herbergi og það með Stöð2, Sýn, Fjölvarpinu og allri þeirri flóru sjónvarpsstöðva sem þá verða í boði. Bridge kvöldin sem núna eru stunduð verða felld niður fyrir Playstation linka kvöld, þar sem gömlu karlarnir keppa við hvorn annan í Gran Turismo og konurnar metast í Sims.
Harmonikku- og vísnakvöldin verða úreld og við taka Thecnokvöld þar sem DJ Göngugrind og DJ Beinþynning þeyta skífum. Matarbakkarnir með Skyrhrærunni, rúgbrauðinu og lifrakæfunni verða ekki á boðstólnum, heldur tvöfaldur burger með frönskum, sósu og ½ lítra kók.
Heilsugöngur og sundtímar víkja fyrir ljósatímum og trimmformstímum. Útlit gamla fólksins verður nánast það sama og starfsfólksins sökum lýtalækninga, og það sem kemur upp um þau er hreyfigetan og líkamsstaðan.
Þátt fyrir að sofa í amerískum king size heilsurúmum.
Orðalag eldriborgara framtíðarinnar er síðan efni í aðra grein.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.6.2007 | 00:53
Það sem að Páfinn sagði og kom ekki fram..!
Það sem ekki kom fram í fréttinni um heimsókn Stefáns til Benedikts Páfa voru litlu samtölin og hversdagslegu orðaskiptin sem fór þeirra á milli.
Það kom m.a. fram að nunnurnar í Hafnarfirði væru mjög ánægðar með vistina þá Íslandi, það er víst aðeins eitt sem að pirrar þær í fari Íslendinga og það eru bílastæðamálin fyrir utan klaustrið. Þeim finnst við Íslendingar leggja oft bílunum okkar fyrir framan klaustrið, þar sem almennt er bannað að leggja bílum. Páfi spurði Stefán út í þetta og Stefán lofaði að skoða málið og senda honum tölvupóst um hæl.
Páfi spurði síðan óvænt frétta af Eðvarði Þór Eðvarðssyni sundkappa. En Benedikt var víst mikill áhugamaður um sund í 25m. laug hér á árum áður og var víst mikill aðdáandi Eðvarðs. Stefán kom alveg af fjöllum og vissi síðast af Eðvarði að kenna sund í Keflavík. Annars þyrfti hann að kynna sér þetta betur.
Heimsóknin endaði síðan með því að Stefán skildi eftir nokkra Opal pakka, grænan, rauðan og bláan (sem var sérstaklega útbúinn fyrir þessa heimsókn). Benedikt var afar þakklátur og ætlar að gæða sér á þessu um næstu helgi.
Það er nauðsynlegt að fá líka litlu fréttamolanna sem að fylgja svona heimsóknum. Þetta eru jú allt bara venjulegir menn eins og við.
Afhenti páfa trúnaðarbréf | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)