Á Ísland ríkustu róna í heimi?

Róni í útlöndumÉg átti leið niður í miðbæ á laugardagsmorguninn. Ætli klukkan hafi ekki verið 10.34.

Það sem kom mér á óvart við þessa sérstöku kaupsstaðarferð var allur þessi fjöldi af rónum sem að ráfuðu einir um strætin. Ég þykist hafa dómgreind til að greina á milli róna og manna sem að sofnuðu óvart í röngu húsi.

Það sem vakti athygli mína, var að þeir voru allir að garfa í GSM símunum sínum!! Einn var augljóslega að reyna að senda SMS, annar var að reyna að hringja og sá þriðji var að taka mynd af félaga sínum. 

Ég fór að pæla, hvernig róna eigum við Íslendingar eiginlega. Maður verður ekki var við þá á götunni að betla pening fyrir mat. Maður sér þá aðallega inná knæpum að sötra bjór á miðjum degi í miðri viku og síðan svona ráfandi með GMS símana sína á morgnanna um helgar.

Eitthvað hlýtur þessi rándýri lífstíll að kosta? Ekki trúi ég því að rónar séu með sérkjör á barnum eða fríðindakort í ÁTVR. Þeir hljóta að vera borga það sama og ég á þessum stöðum. Hvernig eiga þeir efni á því að vera sötra bjór á knæpum alla daga? 500-600 kall bjórinn.

Ekki nóg með það, þeir eru greinilega allir með GSM og þar sem þeir endast greinilega mun lengur en við meðalmennirnir þá er líklegt að þeir noti GSM símann meira. 

Ég veit ekki með ykkur, en ég hef hvergi annarsstaðar séð róna með GSM síma en á Íslandi. 

Efnahagsástandið á Íslandi er greinilega í góðum málum. Ísland er besta land í heimi.

 


 


Kenningin mín er rétt, við erum hand-íþróttafólk.

Fyrr í vikunni hélt ég því fram í blogginu að genetískt værum við íslendingar ekki fótboltamenn, heldur hand-íþróttamenn.  

Hér er talandi dæmi um árangur okkar í íþrótt þar sem hendur eru notaðar meira en fætur. Viti menn, við erum í 3ja sæti á Norðurlandamótinu í Bridge í opnum kvennaflokki.

FRÚ. Menntamálaráðherra, kynntu þér kenningu mína og setjum meira fjármagn í íþróttir þar sem að hendur eru notaðar meira en fætur. 

Reyndar er 3ja sætið á norðurlandamótinu líka 3ja neðsta sætið, nema að Færeyingar eigi fulltrúa, þá erum við fyrir ofan miðju og réttilega í 3ja sæti.

 Síðan styttist í leik Íslands og Serba í handbolta og sanniði til, við munum ekki tapa honum 5-0.

Og talandi um 5-0, miðað við gæði fótboltans nú á dögum og síðan á þeim tíma þegar við töpuðum fyrir Dönum 14-2, er 5-0 tap árið 2007, þá ekki verri útreið? Getum við ekki farið að hætta að tala um 14-2 leikinn og valið leik á þessari öld. Þ.e.a.s. 5-0 leikinn gegn Svíum þegar við viljum gera grín af sjálfum okkur?


mbl.is Ísland í 3. sæti í kvennaflokki á NM í brids
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég snobbaður vinnualki, uppfullur af minnimáttarkennd?!

Ég hef alltaf haft gaman af stjörnuspám. Sennilega af því að ég hef gaman af því að ögra sjálfum mér með því að láta stjörnuspánna segja mér fyrir verkum. Hingað til hafa þetta verið saklausar lýsingar á því sem gæti komið fyrir mig. Í þetta skiptið, þá var bláköldum sannleikanum slegið framan í mig eins og blautri tusku.  Steingeitin

Steingeit (21. desember - 20. janúar): Þú ert stífur og vansæll vinnualki, fastur í tilgangslausum siðum og reglum, alltaf að skipta þér af öðrum og segja þeim að gera það sem þú getur ekki gert sjálfur. Þú ert snobbaður og þráir stöðutákn, enda með minnimáttarkennd sem þú heldur að hægt sé að breiða yfir með titlum og merkjavöru.

Ég vil breyta aðeins orðalaginu í þessum texta, sá sem samdi þetta var á réttri leið en klárlega hafði ekki rétta orðaforðann í að gera þetta rétt! Svona hefði ég viljað orða þetta:

 "Þú ert ákveðinn og samviskusamur starfsmaður, skipulagður og formfastur, alltaf tilbúinn til að hjálpa öðrum þó svo að aðstæður þínar leyfa það ekki. Þú ert lífskúnstner og þyrstir í velgengni, enda lífsköllun þín að stefna á toppinn og ert tilbúinn að leika lífsleikinn til fulls".

 Semsagt, fín stjörnuspá og alveg nákvæm lýsing á mér (eða kannski eins og ég vil hafa hana!).

 


Nöfnin skipta máli.

Yasmin pillan hefur aldeilis verið í umræðunni. Það hlýtur að vera bögg fyrir Yasmine Olsson. "Það eru margir á Íslandi búnir að vera á Yasmin." .....ég vona að Addi Fannar sé ekki að hætta á Yasmine!

Talandi um nöfn, sum nöfn eru ónýt. T.d. ef að ég héti Oddur, þá mundi ég seint skýra son minn Davíð. Það væri erfitt fyrir guttann á viðkvæmum aldri. Fyrir utan að honum væri sennilega ekki vel tekið í Bónus.

Nú ef ég héti Helgi, þá mundi ég ekki skýra son minn Ingvar.Hef ekkert á móti bílunum þeirra, þetta væri bara kjánalegt.  

Það væri hrikalegt að gera syni sínum það að skýra hann Annþór Kristján ef að maður héti Karl. Hann fengi eflaust símtöl um nætur og jafnvel heimsóknir.

Síðan gæti ég ekki undir nokkrum kringumstæðum skýrt son minn Steingrím, ef ég héti Njáll. Það væri einfaldlega rangt.

Þessi dæmi eru öll ólík, ekki ætla ég að setja Davíð Oddson í sama flokk og Annþór og Steingrím. En þið vonandi skiljið hvert ég er að fara.

Mannanöfn eru reyndar oft mjög skemmtileg, þrátt fyrir að sum nöfn séu bönnuð.

Síðan er líka bann við löglegum nöfnum sem eru sett "ólöglega" saman.

Ljótur Bolli, Ljótur Drengur, Eylífur Friður og Leoncie Prinsess of Iceland.

Við hjónin fórum hefðbundnar leiðir í nafnagjöf strákana okkar, annar er skýrður í höfuðið á móðurafa, hinn í höfuðið á föðurafa. Reyndar átti föður afinn fyrir fjóra nafna þar sem að ég er yngstur af 6 bræðrum, en við fundum lausn við því innan fjölskyldunnar, hann heitir Vilhjálmur Karl V (fimmti).

Eitt eigum við þó öll sameiginlegt, nöfnin okkar eru ekki okkur að kenna!

 


Ein lítil hugmynd breytir öllu.

Ég hef velt því fyrir mér hver sé lykillinn að velgengni. Allsstaðar í kringum okkur eru fréttir af fólki eða fyrirtækjum sem eru að gera það gott. FL Group, Bakkavör, Eiður Smári, Magni, Sigurrós og svona gæti ég haldið áfram. Hvað með mig, eða þig? Við getum gert svona hluti. Það er það skemmtilega við þetta líf. Það eina sem að þarf er Hugmynd. Bakkavarabræður fengu hugmynd um að pakka tilbúnum ferskum mat til að selja í “hraðbúðum”. Þeir voru eflaust bara eins og við hin, vinnandi frá átta til fimm. Þeir fóru í búðir og keyptu tilbúna frosna rétti. Uppgötuðu síðan að það voru ekki til ferskir pakkaðir réttir. A-ha! Viti menn, 20 árum síðar eru þeir með 43 verksmiðjur í 7 löndum, 16 þúsund starfsmenn og velta 1 billjón sterlingspunda, eða c.a. 140 miljörðum króna. Góð hugmynd. Magni, hann ákvað að slá til og taka þátt í Supernova. Hann hefði alveg geta litið “stórt” á sig eins og sumir sveitaballa-popparar hér á landi og fundist það fyrir neðan virðingu sína að taka þátt í raunveruleikasjónvarpsþætti. Hann lagði sig fram, hafði trú á sér og hugmyndinni um að fara eins langt og hann gæti. 6 mánuðum síðar er hann óskabarn þjóðarinnar og með tilboð úr öllum áttum um að gera það sem honum þykir skemmtilegast, að flytja tónlist. Góð hugmynd. Ég er með eina hugmynd, húðlitaða plástra fyrir dökka húð. Nafnið á þeim gæti verið “Black-Band-aid”. Salan á þessum plástrum væri aðallega í Afríku og í Ameríku. Ég fékk þessa hugmynd í Boston fyrir nokkrum árum þegar dökkur maður kom gangandi á móti mér með húðlitaðan plástur, fyrir hvítt hörund, á enninu. Gallinn við þetta hjá mér er sá að ég hef ekki hugmynd um hvert ég á að snúa mér með þessa hugmynd.


Íslendingar eru hand-íþróttamenn

Ég er alveg búinn að sjá það að Íslendingar geta einungis náð árangri í íþróttum þar sem að hendur koma meira við sögu en fætur. Spjótkast, stangastökk, kúluvarp, sleggja, kringla, kraftakeppnir, handbolti, bridge og skák.

Fornfeður okkar unnu mikið með höndunum, þeir drógu fisk, þeir héldu í tauminn á hestinum sínum, bundu bagga, slógu gras með orf og ljá og svona gæti ég lengi talið. ALDREI þurftu fornfeður okkar að hlaupa langar leiðir, enda ekki landfræðileg skilyrði til að spretta úr spori á tveimur jafnfljótum, nema þá mjög stuttar vegalengdir í einu. Menn þurftu að ganga og fara varlega. Líkt og íslenska landsliðið í fótbolta hefur iðulega gert.

Reyndar náði pabbi minn  langt í þrístökki og þar reynir meira á fætur en hendur, en aðhlaupið í þeirri grein er álíka langt og milli torfbæjarins og fjárhússins. Síðan stökk hann þrjú stökk líkt og að hann væri að stökkva á milli steina í á. Þetta styður þá alkunnu kenningu að við erum ekkert annað en afkomendur fornfeðra okkar!

Að þessu sögðu er kominn tími til þess að við Íslendingar sættum okkur við það að við munum aldrei verða meðal þeirra 20 fremstu þjóða í heimi í fótbolta. Og um leið og við sættum okkur við það þá skulum við einbeita okkur að þeim íþróttagreinum sem að við getum skarað framúr í. Handbolti, Frjálsar, sund og skák. Fimleikar byggja á líkamsburðum sem að við fengum ekki í arf frá fornfeðrum, nema kannski Maggi Scheving.

Þetta þýðir líka að ÍSÍ og menntamálaráðuneytið ætti að íhuga hvert þeir setja fjármagnið sitt, minnka fjármagnið í vonbrigðin og auka það þar sem að við getum skarað framúr og verið landi og þjóð til sóma.

Sumir vilja kannski meina að við þurfum ekki að vera á meðal þeirra 20 bestu þjóða í heimi, heldur hafa bara gaman af þessu! En það eru ekki keppnismenn og ættu því að forðast umræður um keppni, ættu bara að horfa á umræðurnar hafa gaman af þeim.

Ísland er yndislegt land, við búum við erfiðar aðstæður en höfum sigrast á þeim, við erum lítið efnahagsríki en erum samt að skáka þeim stóru. Við erum fámenn en erum samt að veiða meiri fisk en milljón manna þjóðir. Því erum við að skemma þessa ímynd með því að rembast við að finna 11 menn sem eiga að geta spilað saman fótbolta? Vissulega eigum við frábæra knattspyrnumenn í dag og við höfum átt þá í gegnum tíðina. Því miður voru þeir ekki allir af sömu kynslóð og gátu því ekki myndað lið.

Ég er sársvekktur með leikinn gegn Svíum, og hverjum er það að kenna?

Ekki Jolla, Ekki Ívari Ingimars og Ekki Árna Gaut. Það var Leifi Heppna að kenna.Sökudólgurinn á tapinu gegn Svíum

 


Svíar eru að fagna sigri á okkur síðar í dag!

Svíar að fagna sigri á okkur síðar í dag!

Ekki koma Svíar á óvart frekar en fyrri daginn. Þeir eru semsé búnir að vinna okkur samkvæmt blöðunum þar úti.

Þeir tala um að Ísland muni liggja í vörn og eru ekki að tala um hvort þeir vinni, heldur hversu oft þeir ná í gegnum vörnina.

 http://www.gt.se/sport/fotboll/1.710594

Ég bjó í Svíþjóð í 3 ár, frá 90-93. Þá þótti mér það mjög fínt. Þetta voru jú unglingsárin og þá er maður oft í andstöðu við almenn og rökrétt viðmið um hvað sé í lagi og hvað ekki.

Sem betur fer þroskaðist ég og í dag þoli ég Svía varla. Sérstaklega ekki þessa sem maður rekst á í útlöndum.

Við skulum vona að sigurvonir Svía verði brotnar á bak aftur eins og okkar vonir í hvert skipti sem að við sendum okkar besta fólk í Eurovision.

Ég vona innilega að Íslendingar vinni leikinn í dag, en ég spái samt Svíum 4-1 sigur. Maður sleppir ekki opinberu tækifæri á að reynast sannspár.

 


Ok, Internetið er ekki Bóla sem virðist ætla að springa.

Þetta er mögnuð tilfinning.

Ég er að blogga. Nú veit ég að allir sem þekkja mig munu reka upp stór augu.

Árið 1993, þá var "Opin Vika" í ME (Menntaskólanum á Egilsstöðum) og ein kennslustofan var tóm. Á hurðinni var skilti sem á stóð: "INTERNETIÐ- framtíðin?". "Bóla sem springur!"hugsaði ég með mér og fór beint inná leirnámskeið. Síðan þá hef ég ekki unnið með leir.

Þið sem hafið áhuga á leirgerð getið kynnt ykkur málið hér: http://www.lokattakeramik.se/

Annars er ég ennþá að velta fyrir mér hvaða erindi ég á í bloggið. Mér finnst ég bara knúinn til að byrja blogga og það eru nokkrir þættir sem knýja mig áfram.

a) þetta er víst rosalega flott í dag að vera með blogg síðu. Ég hef alltaf reynt að vera  flottur.

b) ég er "has been" og á blogg svæðum landsins er varla þverfótað fyrir þeim, þannig að ég á heima hér.

c) ég hef þörf fyrir að prófa nýja hluti og bloggið er nýtt fyrir mér.

d) golfið er áhugamál sem ég stunda á golfvelli, ég nenni ekki að lesa blöð um það.

e) simmi er víst mjög gott nafn til að blogga með, og það er víst ekki í notkun eins og stendur.

Talandi um "Has been", vissuð þið að  William Shatner er tónlistarmaður! http://en.wikipedia.org/wiki/Has_Been

Ekki veit ég hvort að mitt fyrsta blogg verði notað í sögubókum framtíðar, en þetta er stórt skref að stíga.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband