Þurfum við að fara á bíl?

Ísland er bílaþjóð. Það vita allir. Við  eigum heimsmet í bílaeign miðað við höfðatölu. Og ég efast um að íbúar margra þjóða aki um á jafn nýlegum bílum og við. En erum við ekki oft að nota bílinn að óþörfu?     

Hve stutt þarf vegalengdin að vera til að við sleppum því að fara á bíl? Ég er ekki að pæla í þessu á þeim forsendum að við mengum svo mikið eða að það sé svo mikil heilsubót að ganga. Því hvort tveggja er rétt og allir vita það. Heldur er ég að velta fyrir mér hvort það sé ekki bara almennt séð sniðugra að ganga.

Af hverju dettur manni aldrei í hug að labba útí búð? Er það af því að maður hefur svo lítinn tíma að maður sér ekki af fimmtán mínútum til viðbótar í verslunarferðina? Ekki séns! Meira að segja lögfræðingar ríkislögreglustjóra gætu bætt fimmtán mínútum við innkaupaferðina í Bónus!

Mín skoðun er sú að við séum bara búin að venja okkur of mikið á bílinn. Hægt og bítandi höfum við verið að stytta þá vegalengd sem að við treystum okkur til, eða nennum, að ganga. Ef við tökum Mosfellsbæ sem dæmi þá tekur það mig um það bil tíu mínútur að ganga heima frá mér og  í Krónuna. Sumsé, það tæki mig þrjátíu mínútur að rölta í búðina, kaupa í matinn og rölta heim. Á leiðinni gæti ég tæmt hugann af amstri hversdagsins og ákveðið hvað ég ætla að hafa í matinn, sem tekur mig yfirleitt jafn langan tíma og það tekur mig að labba í búðina. Á heimleiðinni gæti ég svo velt því fyrir mér hvernig ég ætla að elda kvöldmatinn.

Ég kæmi heim rjóður í kinnum og útitekinn, þrátt fyrir að hafa hangið inni allan daginn fyrir framan þessa tölvu sem að ég sit við akkúrat núna. Það sem meira er, matarlystin eykst við útiveruna og labbið felur í sér óvæntan sparnað. Það er nefnilega ekki hægt að bera allt heim sem hugurinn girnist. Þess vegna vandar maður valið og kaupir minna. Löbbum út í búð!

Þið sem viljið endilega halda áfram að vera löt og gráðug, munið að drepa á bílnum á meðan þið eruð í búðinni. Það gæti einhver stolið honum, einhver sem nennir ekki að labba heim.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eva Þorsteinsdóttir

Ég held að þetta gæti eitthvað haft með veðrið að gera..... hver nennir að koma úr búðinni með fulla innkaupapoka og þurfa svo að brjóta sér leið heim í roki og rigningu eða þaðan af verra?

Annars er ég sammála þér með það að leggja megi bílnum öðru hvoru og gefa honum frí.

Enginn er verri þó hann vökni.... ekki satt ;)

Eva Þorsteinsdóttir, 15.6.2007 kl. 21:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband