26.6.2007 | 00:55
Ég var feitari en skólaostur..!
Stundum finnst mér við flækja einfalda hluti.
Það er alveg öfugt við alla þróun í heiminum! Farsími er t.d. ekki lengur bara farsími, heldur er hann líka myndavél, vídeó myndavél, leikjatölva og staðsetningartæki með tölvupósti. Þessu tæki fylgir aðeins eitt hleðslutæki og er því einfaldara með í förum...!
En með því að einfalda öll þessi tæki í einu þá reynist oft erfitt að hringja úr þessum síma. Í staðinn fyrir að tala við mömmu þá er maður búinn að fylla innra-minnið af vídeó upptöku af tánum á sér.
Baráttan við aukakílóin er annað einfalt dæmi sem búið er að flækja.
Í gamla daga var borðaður feitur matur. Slátur, sviðasulta og fiskur með tólg teljast seint til hollmetis í dag. Samt erum við feitari en forfeður okkar. Ástæðan er hreyfingin eða öllu heldur hreyfingaleysið. Forfeður okkar unnu líkamlegt erfiði og voru sífellt að brenna orku og þurftu því orkuríkan mat á borð við slátur.
Í dag þurfum við líkamsræktarkort og jafnvel einkaþjálfara til þess að hreyfa okkur. Ég er sekur, ég fór þessa leið. Ég fór í fitumælingu og fékk úrskurðinn að ég innihéldi meiri fitu en Skólaostur.
Ég og GOTTI vorum eins. Þessi niðurstaða var og er ástæðan fyrir því að ég sést 4 sinnum í viku á fullu á hlaupabrettinu í Laugum. Þar neyðist ég til að horfa aftan á sveittan endurskoðanda hamast á stigavélinni og finna af honum lyktina.Fyrir þetta borga ég tugi þúsunda á ári.
Væri ekki einfaldara að fara út að hlaupa, fá frískt loft með því að klæða sig vel og spara pening?! Nei, alveg rétt, ég er í reglulegum sparnaði í greiðsluþjónustunni og þarf ekki að spara meira. Ég er í greiðsluþjónustunni til þess að þurfa ekki að fara í bankann. Auk þess fæ ég nægt frískt loft þegar ég fer og sæki pítsu sömu stærðar frítt með. Ég kann nefnilega ekki við að sýna leti og fá hana senda frítt heim, fyrir utan að það er svo flókið að hringja úr farsímanum mínum.
Athugasemdir
Thi hi hi hi mér finnst þú fyndinn!
Ég er líka búin að vera í heilsuátaki. Mín mesta skemmtun á meðan á púlinu stendur er að hlægja að öllum spandex-týpunum sem valhoppa í kringum í mig.... verandi engu skárri sjálf! Ég byrjaði t.d. að hlaupa í september sl og er orðin nokkuð góð í því .... á hlaupabrettinu. Fara út að hlaupa??? Æi, það er ekki nógu huggulegt því þá getur maður ekki horft á Oprah um leið.
Guðný Helga Herbertsdóttir, 27.6.2007 kl. 12:05
Ég er reyndar með mjónu vandamál, ég verð að passa mig á að borða oft og mikið... nammi og alles annars verð ég að engu.. ég tel það vera vegna þess að heilinn notar svo mikið power að líkaminn á í vök að verjast..
DoctorE (IP-tala skráð) 27.6.2007 kl. 17:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.